154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:14]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera að rugla því saman að annars vegar er um að ræða umsækjendur um alþjóðlega vernd og hins vegar fólk sem sest hér að eftir að hafa fengið vernd. Þegar ég tala um kjarna til að þjónusta umsækjendur um alþjóðlega vernd þá er það auðvitað fólk sem er ekki í langan tíma inni í slíkum kjörnum eða að nýta sér þjónustu slíkra kjarna. Það liggur auðvitað í augum uppi. Það eru allt önnur lögmál þegar fólk er komið með vernd hér í landinu og þarf að samlagast, aðlagast og inngildast inn í íslenskt samfélag. Hv. þingmaður hlýtur að vera að rugla þessu tvennu saman. Og hvers vegna hugnast mér vel að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti leitað inn í kjarna líkt og við erum að byggja upp á Ásbrú, í Offiseraklúbbnum? Jú, það er vegna þess að þar er hægt að veita fólki betri þjónustu. Hvort sem það eru börn sem eru að sækja sér menntun, að læra íslensku, að læra um Ísland, eða fullorðnir sem fara þá í meiri virkni — við erum með þetta á einum stað og það er bara ekkert neikvætt við það. En ég tek það mjög skýrt fram að ég er ekki að tala um að við eigum að hafa einhverja slíka kjarna fyrir fólk eftir að það er búið að fá vernd hér. Ef málsmeðferðahraðinn væri með eðlilegum hætti væri fólk að meðaltali 90 daga að komast í gegnum það að fá svar á fyrsta stjórnsýslustigi, aðra 90 daga á öðru stjórnsýslustigi, ef kært er til kærunefndar útlendingamála, og síðan getur það samkvæmt reglugerð verið hér í átta vikur þangað til búið er að finna því húsnæði í einhverju sveitarfélagi, einmitt dreift en ekki í kjörnum.